Algeng vandamál
Ungt fólk á í flestum tilfellum auðvelt
með að eignast vini og þeim er tamt að gefa persónuupplýsingar,
s.s. netfang, heimilisfang, heiti skólans og jafnvel símanúmer,
til netvina sinna einkum ef þau eru á stað sem
þau telja "öruggan", s.s. heimili eða skóla.
Mikilvægt er að ræða við unga fólkið
að fara mjög varlega í því að gefa
upp slíkar upplýsingar.
Mikilvægt er að foreldrar ræði netnotkun við
börnin sín og hvetji þau til að skýra
út hvað þau eru að aðhafast á Netinu.
Foreldrar eiga einnig að hvetja börnin til að ræða
öll vandamál og neikvæða upplifun sem þau
verða fyrir við netnotkun. Foreldrar ættu líka
að ræða ógn þess ókunnuga og mikilvægi
þess að gefa ekki upp persónuupplýsingar.
Ef ungmenni ákveða að hitta einhvern sem þau
hafa kynnst á Netinu eiga þau alltaf að segja einhverjum
fullorðnum frá því, taka einhvern sem þau
treysta með á fundinn og hittast á opinberum stað.
Í sumum skólum fá nemendur aðgang að
netfangi og þeir eldri sérstakt netfang. Það
er mismunandi hvernig þeir mega nota netfangið og einnig
hvernig tölvupóstur er meðhöndlaður, þ.e.
hvort leitað er að vírus í honum og ruslpóstur
síaður úr. Það er vaxandi vandamál
að fólk fær ruslpóst með óæskilegu
efni, s.s. klámi og ofbeldi sem undirstrikar mikilvægi
þess að skrá ekki netfangið sitt út
um víðan völl.
Nánast ógjörningur er að stöðva
ruslpóst. Þessi póstur er oftast óumbeðinn
og óvelkominn og fullur af ýmiskonar gylliboðum,
s.s hvernig hægt sé að verða tafarlaust ríkur,
klámefni og ýmiskonar falsboðum. Besta ráðið
er að eyða þessum pósti strax án þess
að opna hann og alls ekki svara honum, þá fær
sendandi vitneskju um að netfangið sé virkt og þú
líklegur til að skoða allt sem er sent til þín.
Því máttu búast við að fá
meiri póst ef þú opnar póst af þessu
tagi og svarar honum. Jafnvel að afskrá sig af einhverjum
lista gerir netfangið þitt verðmætt fyrir sölumenn
því þá geta þeir selt öðrum
aðilum netfangið þitt og greint frá að
þú skoðir allan póst.
Aðgætið vel að skrá ekki netfangið
ykkar á skráningarform á vefsíðum
sem lofa að senda ykkur t.d. reglulega brandara því
að búast má við að það ýmislegt
fylgi í kjölfarið. Einnig er ekki æskilegt
að skrá netfangið í gestabækur af sömu
ástæðu.
Keðjubréf ýmiskonar eru á stöðugum
sveimi á Netinu og best er að svara þeim ekki og
alls ekki að senda áfram til annarra þar sem slíkt
getur farið í taugarnar á fólki.
Ef þið verðið vör við að verið
er að senda börnunum ykkar ógnandi póst eða
póst með efni sem túlka má sem einelti
ættuð þið að láta tafarlaust vita
af því. Ef ætla má að tölvuósturinn
komi frá aðila í sama skóla eða skóla
í næsta nágreni ættuð þið
að láta skólayfirvöld vita af því
þar sem þau vinna eftir aðgerðaráætlunum,
s.s. gegn einelti. Ef bréf er frá aðila utan skóla
er best að hafa samband við internetþjónustuaðila
sem netfangið er fengið hjá. Í flestum tilfellum
má sjá það fyrir aftan @ - merkið, s.s.
notandi@simnet.is er notandi hjá Símanum Internet.
Kvartið við þjónustuaðila og tilkynnið
honum að umræddur aðili sé að misnota netaðganginn
sinn. Flest póstforrit er hægt að stilla þannig
að hægt er að eyða pósti frá tilteknum
aðila.
Ef tölvupóstur er sérstaklega ógnandi
og efni hans gæti varðað við lög skaltu ekki
hika við að hafa samband við lögreglu. Prentaðu
bréfið ef þú hefur tök á því
og geymdu sem sönnunargagn.
Gættu vel að því sem þú skrifar
í tölvupóst. Pósturinn þinn gæti
því náð til mun fleiri en þú
hafðir í hyggju í upphafi. Æskilegt er að
hafa alltaf í huga að tölvupóstur gæti
verið lesinn af ókunnugum og ekki segja neitt í
tölvupósti sem þú getur ekki endurtekið
opinberlega.
Tölvuvírusar eru að verða mjög algengt
vandamál á Netinu og geta valdið alvarlegu tjóni.
Algengast er að þessum forritum sé dreift sem viðhengjum
í tölvupósti. Ef sýkt viðhengi er
opnað smitast tölvan og í flestum tilfellum nær
vírusinn að senda sjálfan sig áfram til
allra netfanga í póstforritinu. Þannig viðheldur
tölvuvírusinn sjálfum sér og margfaldar
sig. Sumir þjónustuaðilar sía út
sýktan póst þannig að lítil hætta
er á því að sýktur póstur
berist ef folk er með netaðgang hjá traustum aðila.
Fáir þú hins vegar grunsamlegan póst
skaltu eyða honum og alls ekki opna viðhengið. Aðgættu
vel að eyða póstinum síðan úr "Deleted
items" möppunni.
|